Erlent

Íbúar úthverfanna afhenda þingmönnum umkvartanir

Undirskriftir tuga þúsunda óánægðra íbúa í úthverfum Parísar og víðar í Frakklandi verða afhentar þingmönnum í dag. Hópur sem kallar sig AC le Feu hefur síðan á síðasta ári ferðast um Frakkland og safnað undirskriftum og umkvörtunum íbúa úthverfanna sem finnast þeir afskiptir af frönskum stjórnmálamönnum og þjóðfélagi. Þessar undirskriftir ætla þeir að afhenda í þinghúsinu í dag.

Í skýrslu Upplýsingaþjónustu frönsku lögreglunnar sem dagblaðið Le Figaro komst yfir í gær segir að ástandið í úthverfunum sé enn mjög eldfimt þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks sé víða svimandi hátt. Þar er hátt hlutfall innflytjenda og mörgum þeirra finnst þeir afskiptir í frönsku samfélagi og af frönskum stjórnmálamönnum. Í skýrslunni segir að þeir þættir sem valdi óánægju fólksins hafi lítið breyst síðan á síðasta ári og því olían enn til staðar til að eldurinn blossi upp á ný.

Skýrslan varar einnig við því að ekki þurfi mikið til að reiði beinist gegn lögreglunni og því reyna lögreglumenn að láta lítið fyrir sér fara, þó franska lögreglan sé við öllu búin, nú þegar eitt ár er liðið frá óeirðum í úthverfunum. Úthverfabúar kvarta einnig yfir því áreiti frá lögregluþjónum sem leggi ungt fólk í einelti ef þeir líkist staðalímyndum þeirra sem taldir eru vandræðagemsar.

Atvinnumálaráðherra Frakklands sagði á dögunum að áframhaldandi óánægja meðal ungs fólks í úthverfunum orsakaðist af djúpstæðu vandamáli á franska atvinnumarkaðnum. "Þetta eru mistök síðustu fjörutíu ára sem þarf að laga. Við þurfum fimm ára áætlun. Fimm ár til að endurmennta unga fólkið, þjálfa það og hjálpa hverjum og einum að finna sér starf. Þetta er margþætt áætlun en fólk má ekki telja sér trú um að hægt sé að að leysa þetta á tveimur árum, það þarf þrjú, fjögur eða fimm ár til að láta þetta virka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×