Erlent

Fjarlægja æxli með hátíðnihljóði

Læknum hefur tekist að þróa aðferð til að fjarlægja æxli með hátíðnihljóði. Uppskurðir gætu því heyrt sögunni til.

Verið er að gera tilraunir með aðferðina á konum með bandvefsæxli, sem hefðu annars þurft að gangast undir legnám. Aðferðin felst í því að beina sterkum ómsjárgeisla að sýktum vefjum og hún skilur ekki eftir ör.

Þær aukaverkanir sem fylgja venjulegum aðgerðum eru ekki til staðar. Hljóðið er of hátt til að mannseyrað greini það, það er engin geislun og ekki um að ræða lyfjameðferð.

Í segulmyndatöku liggja sjúklingarnir á maganum á meðan læknar miða á réttan stað. Á einni sekúndu hitnar æxlið í 55 gráður með þeim afleiðingum að bandvefurinn eyðist.

Geislinn er 10 þúsund sinnum sterkari en venjulegur ómgeisli til að skanna ófrískar konur, en er einungis fárra millimetra breiður.

Bandvefsæxli í legi eru frekar algeng, en þau greinast hjá einni konu af þrem. Með nýju aðferðinni tekst læknum að fjarlægja æxlið án þess að skemma svæðið í kring, og konan hefur áfram möguleika á að ala barn.

Prófanirnar fara fram á St Mary sjúkrahúsinu í London og frekari upplýsingar má nálgast hér.

Fréttastofa Sky greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×