Innlent

Aldrei meiri afgangur af ríkissjóði

Ríkissjóður var rekinn með 113 milljarða afgangi á síðasta ári, og hefur aldrei verið jafn mikill afgangur á ríkissjóði áður. Hagnaður af sölu Símans skýrir aðeins helming þessarar góðu stöðu en uppgangur í efnahagslífinu jók tekjur ríkissjóðs um 55 milljarða.

Þetta kemur fram í ríkisreikningi fyrir árið 2005 sem nú hefur verið lagður fram. Tekjur ríkissjóðs árið 2005 voru 421,2 milljarðar króna og útgjöld voru 308,4 milljarðar. Afgangur fjárlaga ársins var því 113 milljarðar og hefur aldrei verið meiri. Til samanburðar var afgangur af rekstri ríkissjóðs árið 2004 aðeins tveir milljarðar króna. Mestu munar um tekjur ríkissjóðs af sölu Símans, sem gaf ríkissjóði 56 milljarða króna. Það vekur hins vegar athygli að aðrar tekjur ríkissjóðs hækkuðu um 55 milljarða króna sem fjármálaráðuneytið skýrir að mestu með uppgangi í efnahagslífinu og aðhaldi í útgjöldum.

Góð staða ríkissjóðs á árinu 2005 gerði ríkissjóði kleyft að greiða niður erlendar skuldir um 50 milljarða króna.

En lítum nú á tekjur ríkissjóðs, sem eins og áður sagði námu 421,2 milljörðum. Mest munar um tekjur af sköttum á sölu vöru og þjónustu. Þær voru 165 milljarðar, eða 39 % af heildartekjum. Þessar tekjur jukust um 24 milljarða frá árinu 2004 og munar þar mest um 18 milljarða í auknum tekjum af virðisaukaskatti, sem segir sitt um neyslu landsmanna. Tekjur af sköttum á einstaklinga og fyrirtæki sem og fjármagnstekjuskattur aukast einnig og voru 132 milljarðar árið 2005, í stað 102 milljarða árið 2004.

En í hvað fara tekjur ríkissjóðs. Lang stærsti útgjaldaliðurinn er heilbrigðismál. Á árinu 2005 kostaði heilbrigðiskerfið 77 milljarða króna. Næst stærsti útgjaldaliðurinn er almannatryggingar og velferðarmál með 70 milljarða. Kostnaður ríkissjóðs vegna atvinnumála, en undir þann lið falla samgöngu- og landbúnaðarmál, var 44 milljarðar. Menntakerfið tók til sín 42 milljarða og hækkuðu útgjöld þar mest, eða um 7,5 prósent. Þar munar mest um 13,9 prósenta aukningu á framlögum til háskólanna, samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×