Innlent

Þjónustan muni ekki batna

Læknar við Landspítalann óttast að nýtt hátæknisjúkrahús muni alls ekki skila sjúklingum betri þjónustu en nú. Húsakynni og stjórn spítalans verði stærri, en þjónustan batni ekki.

Undirbúningur byggingar nýs hátæknisjúkrahúss við Hringbraut er kominn á fullan skrið. Ingólfur Þórisson, verkefnisstjóri við sjúkrahúsið segir að framkvæmdirnar sjálfar hefjist líklega á árunum 2008-2009 og fyrstu sjúklingarnir verði svo komnir inn árið 2013 ef allt gangi að óskum.

Þrír læknar sem fréttastofan ræddi við í dag sögðust ekkert botna þessu hugtaki sem hingað til hefur verið notað. Spítalinn sé jú nú þegar hátæknisjúkrahús og jafnvel þó að nýtt hús verði tekið í notkun, sé hátæknin engu meiri, enda tækjabúnaður og mannauður að mestu sá sami.

Læknarnir eru allir sammála um að hið nýja sjúkrahús komi til með að verða mikill peningasvelgur og stjórn spítalans bólgni enn frekar út. Milljarðarnir átján úr Símasölunni komi því tæplega til með að skila sér til sjúklinga spítalans. Samkvæmt heimildum fréttastofu skiptast starfsmenn landsspítalans algjörlega í tvennt hvað þetta varðar, annars vegar þá sem eru sáttir við hið nýja sjúkrahús og svo þá sem telja staðsetninguna slæma, báknið of stórt og peningunum illa varið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×