Innlent

Tugmilljóna kostnaður vegna ósættis

Íslensk flugmálayfirvöld þurfa að fjárfesta í vopnaleitarbúnaði á Keflavíkuflugvelli fyrir tugmilljónir króna vegna ósamkomulags Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins um starfsaðferðir. Hugsanlegt er að leggja þurfi sérstakt öryggisgjald á þá sem millilenda hér vegna kostnaðarins.

Greint var frá því í fjölmiðlum á dögunum að gerð hefði verið vopnaleit á farþegum sem komu frá Keflavík þegar þeir komu til Kastrup-flugvallar á miðvikudag. Slík leit hefur hingað til aðeins verið gerð áður en fólk stígur upp í flugvélar. Vegna ósættis Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um starfsaðferðir við vopnaleit og atriði sem snúa að flugvernd hefur ESB gefið út reglugerð sem kveður á um leita á bæði komu- og áningarfarþegum í þeim flugstöðvum þar sem þeir blandast brottfararfarþegum.

Þannig er málum háttað á Keflavíkurflugvelli og því þurfa flugmálayfirvöld að fjárfesta í vopnaleitarbúnaði þannig að farþegar frá Bandaríkjunnum og öðrum löndum utan EES teljist hreinir fyrir millilandaflug. Búnaðinum verður komið upp í suðurhluta Leifsstöðvar í júní og kostnaður vegna hans hleypur á tugum milljóna.

Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri á Keflavíkuflugvelli, segir að tækjabúnaðurinn kosti um 40 milljónir og þá sé ótalinn uppsetningarkostnaður. Svo megi búast við því að rekstrarkostnaður og mannahald hlaupi einnig á tugum milljóna.

Björn Ingi segir að þessi viðbótarvopnaleit á komu- og áningarfarþegum geti tafið síðarnefnda hópinn sem hafi ekki mikinn tíma til að skipta um flug. Völlurinn sé tengistöð Icelandair og öll töf setji meiri pressu á framkvæmdina.

Hugsanlegt er að þetta hafi för með sér aukinn kostnað fyrir flugfarþega. Björn Ingi segir að hugsanlega þurfi að hækka svokallað öryggisgjald því einhvers staðar verði menn að sækja fé fyrir þetta. Þetta séu miklir fjármunir sem verja þurfi til leitarinnar en hann voni að á einhverjum tímapunkti semji ESB og Bandaríkin um vopnaleitarreglur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×