Innlent

Rafstuðsólar geta gert hunda árásargjarna og sálsjúka

MYND/ÞÖK

Hundaólar með rafstuði, sem seldar eru í verslun í Reykjavík, geta gert hunda árásargjarna og sálsjúka, að sögn hundaatferlisfræðings. Hann vill að bannað verði með lögum að flytja ólarnar inn og selja þær.

Greint var frá því í fréttum NFS í fyrradag að í Sportbúð Títans á Krókhálsi eru seldar hálsólar fyrir hunda sem hægt er að gefa rafstuð með. Þær hafa verið þar til sölu í tæpt ár. Um nokkrar gerðir er að ræða og að sögn Fannars Pálssonar, rekstrarstjóra verslunarinnar, eru ólarnar bæði notaðar til að þjálfa veiðihunda og sporna við hegðunarvandamálum hjá hundum.

Á fjarstýringu sem fylgir ólunum eru tveir hnappar, annar þeirra til að gefa hljóðmerki sem kemur úr ólinni og er þá ætlað að hindra tiltekna hegðun hjá hundinum. Ef það ber ekki tilætlaðan árangur er hinn hnappurinn notaður, sem gefur hundinum rafstuð. Fannar segir að eftir örfá skipti verði nóg að gefa hljóðmerkið því hundurinn tengir það við rafstuðið. Löglegt er að flytja ólarnar inn og selja þær, en ólöglegt að nota þær.

Björn Styrmir Árnason hundaatferlisfræðingur er ekki hrifinn af notkun þessara óla. Hann segir að ef vandamálið hjá hundinum sé tengt kvíða eða geðshræringu sé mjög auðvelt, ef hinn almenni hundaeigandi notar tækið, að gera hundinn meira kvíðinn, og jafnvel árásargjarnan og sálsjúkan. Björn vill að breyting verði gerð á dýraverndunarlögum til að stöðva innflutning og sölu ólanna, enda séu dýraverndarráð og dýraverndarsamtök sammála um að slíkt þurfi að gera.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×