Erlent

Sprenging rýfur kyrrð í Kasmír

Fimm manns létu lífið í árásum byssumanna í Kasmír fylki á Indlandi í morgun. Spenna minnkaði verulega fyrir tveimur árum þegar friðarumleitanir hófust í alvöru milli Pakistans og Indlands og á meðan voru ofbeldisverk í lágmarki. Sprengingin í morgun varð á fjölfarinni götu í miðborg Srinagar. Auk þeirra fimm sem létu lífið særðust 18 manns. Allir sem létust dóu inni á aðalspítala borgarinnar, sem er við götuna. Þetta tilkomumikla fjallahérað í Himalayafjöllum Kasmír hefur verið bitbein stjórnvalda í Nýju Delhi og Islamabad síðan Bretar skildu Pakistan að frá Indlandi og veittu ríkjunum sjálfstæði árið 1947. Fram til ársins 1989 var Kasmír vinsæll áfangastaður ferðamanna, sem bjuggu í húsbátum á Dal vatni og klifruðu upp í fjöllin á landamærunum við Pakistan og Kína. Síðan þá hafa tugþúsundir manna látið lífið í átökum, milli hindúa og múslima. Indverjar saka Pakistana um að fjármagna skæruliða múslima í Kasmír en múslimar í Kasmír kvarta á móti undan harðneskjulegum aðferðum indverska hersins. Jarðskjálftinn í Kasmír í fyrrahaust olli mestum skaða í pakistanska hluta héraðsins, en í kjölfar hans mátti sjá merki um batnandi samskipti Indverja og Pakistana, einkum í Kasmír. Sprengjutilræðið í morgun er því verulegt áhyggjuefni þeim sem vonuðust eftir friði í þessum tignarlega fjallasal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×