Innlent

Ölvunarakstur algeng ástæða banaslysa

MYND/Teitur

Ölvunarakstur orsakaði flest banaslys í umferðinni á síðasta ári og flest umferðarslys urðu í desembermánuði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um umferðarslys. Meirihluti umferðarslysa verða milli klukkan fjögur og fimm síðdegis eða helmingi fleiri en verða milli átta og níu á morgnana.

Þegar meðaltal banaslysa á Norðurlöndum á síðustu 10 árum er skoðað sést að hlutfallslega létust flestir í Danmörku og næst flestir á Íslandi. Fæstir létst hins vegar í Svíþjóð.

Heildarfjöldi slysa, slasaðra og látinna í umferðinni á Íslandi var minni árið 2005 en árið á undan. Slysatilvikum fækkaði úr 790 í 671 milli áranna. Alvarlega slösuðum fjölgaði hins vegar úr 115 í 129 á milli áranna. Árið 2004 létust 23 en árið 2005 létust fjórum færri eða 19. Í sex banaslysum af sextán á síðasta ári var um ölvunarakstur að ræða.

Ef horft er til síðustu 10 ára sést að fækkun slasaðra og látinna á Íslandi hefur verið mikil. En þeim hefur fækkað um rúm 57% ef miðað er við 100.000 ökutæki. Einnig hefur dregið úr slysum á börnum á síðstu 10 árum en þeim hefur fækkað úr 176 í 105. Í skýrslunni kemur einnig fram að flest umferðarslys á síðasta ári urðu í desember og næst flest í ágúst.

Flest umferðaróhöpp verða milli klukkan fjögur og fimm síðdegis þegar margir eru á leið heim úr vinnu en þau eru helmingi fleiri en þau sem verða milli klukkan 8 og 9 á morgnana þegar margir eru á leið í vinnu. Umferðaróhöpp og slys eru flest á föstudögum en fæst á sunnudögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×