Innlent

Þakklátur fyrir að vera lífi

Tvítugur ökumaður, sem velti bíl sínum á Kringlumýrarbraut á sunnudag, er þakklátur fyrir að vera á lífi og segir slysið hafa kennt sér að nota bílbelti í framtíðinni.Hann missti stjórn á bíl sínum, þegar hann keyrði norður Kringlumýrarbraut og lenti á brúarstólpa göngubrúarinnar.

Aðtæður á slysstað voru skelfilegar og sjónarvottar segja það hafa minnt á þotu taka á flug, þegar bíllinn tókst á loft og hvolfdi. Ökumaðurinn tvítugi, sem nú liggur á bæklunardeild, segist hafa verið á um 90 kílómetra hraða, á leið í Kringluna, þegar hann skiptir um akrein og missir stjórn á bílnum.

Jón Kristinn gekkst undir aðgerð vegna brjóstholsáverka. Lungun féllu saman og búið er að koma tveimur stálplötum fyrir í hægri handlegg hans. Tveir hryggjarliðir brotnuðu og segja læknar það hafa verið millimetraspursmál hvort hann myndi geta gengið á ný. Enn bíða hans uppskurðir og óvíst er hvenær hann jafnar sig í baki.

Hann er þakklátur fyrir að vera á lífi, og ráðleggur öðrum að gera það sem hann mun sjálfur gera hér eftir, þ.e. nota bílbelti og aka varlega.

Frændi Jóns Kristins, sem var farþegi í bílnum slapp ómeiddur og komst út úr bílnum með því að brjóta rúðu, en beita þurfti klippum til að ná Jóni Kristni út.

Fyrstu viðbrögð þeirra sem koma á vettvang umfeðraslysa eru oft og tíðum þau að ná viðkomandi út úr bifreiðinni. Rétt viðbrögð eru hins vegar þau að hlúa að þeim slösuðu þar sem þeir eru staddir og bíða eftir sjúkraflutningamönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×