Innlent

Lægsta tilboð í Héðinsfjarðargöng 5,7 milljarðar króna

Tékkneskur verktaki, Metrostav, í samstarfi við Háfell, átti lægsta tilboð í Héðinsfjarðargöng, upp á 5,7 milljarða króna. Tilboð þeirra reyndist 720 milljónum króna undir kostnaðaráætlun. Útboðið var lokað sem þýðir að verktakar höfðu verið samþykktir fyrirfram í forvali.

Þetta er í annað sinn sem Vegagerðin býður út Héðinsfjarðargöng en fyrir þremur árum áttu Íslenskir aðalverktakar og NCC lægsta boð. Ríkisstjórnin frestaði þá framkvæmdum og bar fyrir sig þenslu og hlutust af málaferli í kjölfarið sem enn sér ekki fyrir endann á.

Kostnaðaráætlun að þessu sinni hljóðaði upp á tæplega sex og hálfan milljarð króna. Lægsta boð áttu tékkneska fyrirtækið Metrostav og Háfell, upp á liðlega 5,7 milljarða króna. Það er 89% af áætlun og um 720 milljónum króna undir henni. Leonard Nilsen og Héraðsverk áttu næstlægsta boð, en síðan komu Arnarfell og Ístak en langhæsta boð áttu Marti Contractors og Íslenskir aðalverktakar, upp á tæplega níu milljarða króna. Vegamálastjóra líst vel á tilboðin þótt kínverskur verktak, sem talinn var líklegastur til að bjóða lægst, hafi hætt við í síðustu viku.

Héðinsfjarðargöngin verða tvenn, 6,9 kílómetra löng milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar og 3,7 kílómetra löng milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar. Framkvæmdir eiga að hefjast í sumar og ljúka árið 2009.

Héðinsfjarðargöng eru stærsta einstaka framkvæmdin sem ríkið hefur boðið út um árabil. Aðeins tónlistarhús í Reykjavík jafnast á við göngin en ríkið stendur að því í samstarfi við Reykjavíkurborg.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×