Innlent

Mun fleiri fá ríkisborgararétt árlega nú en fyrir 15 árum

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti á vef sínum upplýsingar um veitingu íslensks ríkisfangs. Tölurnar byggja á upplýsingum úr þjóðskrá og sýna fjölda einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang samkvæmt lögum á árunum 1991 til 2005.

Einstaklingum sem hafa fengið íslenskt ríkisfang hefur fjölgað mjög ört á síðustu árum. Árið 2005 voru þeir 726 samborið við 161 árið 1991. Mest fjölgunin varð milli áranna 2003 og 2004 en þá fjölgaði einstaklingum sem öðluðust íslenskt ríkisfang úr 463 í 671. Flestir einstaklingar sem fengu íslenskt ríkisfang á árinu 2005 höfðu áður ríkisfang í Póllandi, eða 184, næstflestir voru frá Serbíu og Svartfjallalandi, 72, og 50 höfðu áður ríkisfang í Taílandi.

Pólverjum sem fá íslenskt ríkisfang hefur fjölgað mjög ört undanfarin ár. Hverfandi fáir Pólverjar hlutu íslenskt ríkisfang framan af tíunda áratug síðustu aldar en undanfarin tvö ár hafa þeir verið langfjölmennastir þeirra sem hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×