Innlent

Úthlutun úr minningarsjóði

Fyrsta úthlutun úr Minningarsjóði hjónanna Helgu Jónsdóttur og Bjarna Snæbjörnssonar læknis í Hafnarfirði fer fram á morgun. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til hagsmunamála barna í Hafnarfirði átján ára og yngri. Alls bárust ellefu umsóknir um styrk í sjóðinn en að þessu sinni hljóta þrír aðilar úthlutun samtals að upphæð 381.000 krónur.

Í skipulagsskrá sjóðsins kemur fram að styrkir skuli einkum veittir til: ,,starfsemi á vegum einstaklinga, samtaka fyrirtækja og opinberra aðila, sem veita börnum sem eiga við erfiðleika að etja vegna fötlunar, sjúkdóma eða félagslegra aðstæðna, þjónustu og aðstoð."

Þeir þrír staðir sem hljóta styrki eru:

Iðjuþjálfun æfingastöðva Styrktarfélags lamaðra og fatlaða í Hafnarfirði til kaupa á sérhönnuðum húsgögnum fyrir hópstarf barna í iðjuþjálfun, Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir óperusöngkona og Ólafur B. Ólafsson kennari til tónlistarflutnings fyrir heimilismenn á sambýlum í Hafnarfirði og Sjúkraþjálfarinn ehf. til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun barna.

Úthlutunin fer fram í Hásölum Strandbergs í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju á afmælisdegi Bjarna læknis þann 8. mars n.k. klukkan 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×