Innlent

Strætóferðir líklegar til Árborgar og Reykjanesbæjar

Framkvæmdastjóri Strætós telur mjög líklegt að komið verði á reglubundnum strætóferðum milli höfuðborgarsvæðisins og Árborgar og Reykjanesbæjar. Sams konar ferðir til og frá Akranesi hafa gengið mun betur en búist hafði verið við.

Breytingar sem gerðar hafa verið á leiðakerfi Strætós tóku gildi í dag en með þeim er brugðist við athugasemdum frá bæði viðskiptavinum og vagnstjórum vegna hins nýja leiðakerfis sem tekið var í gangið á síðasta ári. Meðal breytinganna eru fjórar nýjar leiðir, tvær í Reykjavík og tvær innan Kópavogs.

En það eru hugsanlega frekari breytingar leiðakerfinu á döfinni því bæjaryfirvöld í Árborgog Reykjanesbæ hafa lýst yfir áhuga á reglubundnum ferðum milli höfuðborgarinnar og sveitarfélaganna. Slíkar ferðir hafa verið á milli Akraness og Reykjavíkur frá áramótum og hafa að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Strætós, gengið vel.

Ásgeir segir að verið sé að skoða hvernig hægt sé að koma strætóferðum á Suðurland og Suðurnes í kring en rútufélög hafi sérleyfi á þessum leiðum. Aðspurður hvort hann telji líklegt að af þessu verði segir Ásgeir að hann telji það mjög líklegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×