Innlent

Stærsta hundasýning sem haldin hefur verið hér

Það var allt annað en hundleiðinlegt í Reiðhöll Fáks um helgina, en þar fór fram stærsta hundasýning sem haldin hefur verið hérlendis.

Það var Hundaræktarfélag Íslands sem stóð fyrir sýningunni sem telst alþjóðleg en dómarar frá Svíþjóð, Portúgal og Finnlandi tóku þátt í henni. Yfir sextíu hundategundir voru til sýnis og alls voru 620 hundar leiddir fyrir dómara um helgina. Þarna voru bæði stórir og smáir hundar, loðnir og stutthærðir og ungir og gamlir. Þarna var íslenski fjárhundurinn og aðrir töluvert rokkaðari. Sumir voru lítt hrifnir meðan verið var að snyrta þá fyrir herlegheitin á meðan aðrir tóku lífinu með ró.

Allir áttu hundarnir það sameiginlegt að vera í hópi fallegustu hunda landsins en þeir allra fallegustu voru verðlaunaðir sérstaklega. En þótt keppnisskapið sé eflaust mikið hjá bæði hundunum og eigendum þeirra þá skiptir ekki síður máli fyrir þennan besta vin mannsins en manninn sjálfan að sýna sig og sjá aðra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×