Innlent

Landshlutapólitík í orkumálum bitnar á Suðurnesjamönnum

Landshlutapólitík í orkumálum hefur skaðað Suðurnes, að mati forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, Júlíusar Jónssonar, sem segir stjórnvöld hindra orkuöflunaráform fyrirtæksins á Reykjanesskaga.

Suðurnesjamenn hafa með byggingu Reykjanesvirkjunar sýnt hversu öflugir þeir eru orðnir í raforkugeiranum en þetta hundrað megavatta orkuver er að verða tilbúið, aðeins tveimur árum eftir að samið var um orkusöluna til Norðuráls. Nú leita þeir leiða til að virkja meira svo þeir geti þjónað álveri í heimabyggð, í Helguvík, en finna fyrir tregðu stjórnvalda. Þeir horfa til jarðhitasvæða í Reykjanesfjallgarði og hafa þegar fengið rannsóknarleyfi í Trölladyngju og Sandfelli við Krýsuvík. Frekari leyfisveitingar hafi, að sögn Júlíusar, stöðvast í kerfinu. Breytingar á raforkulögum hafi einnig reynst Suðurnesjum andstæðar.

Hitaveita Suðurnesja verður í lok næsta árs farin að framleiða 175 megavött á Reykjanesskaga, þar af fara um 150 megavött út af svæðinu.

Forstjóri Hitaveitunnar, Júlíus Jónsson, telur hins vegar að það geti verið skynsamlegt að fresta framkvæmdum þar sem öll uppbygging verði dýrari á þenslutímum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×