Innlent

Stríð í Straumi-Burðarási

Átök eru í uppsiglingu í eigendahópi Straums-Burðaráss eftir að varaformanninum Magnúsi Kristinssyni var velt úr sessi í gærkvöldi.

Magnús kallar þetta ruddalegan yfirgang "stráksins" Björgólfs Thors Björgólfssonar og mun krefjast hluthafafundar og uppgjörs.

Það er ekki nema hálft ár síðan menn settust að borði og sameinuðu Straum-Burðarás. En skjótt skipast veður í lofti á vettvangi viðskiptanna. Aðalfundur var í gær þar sem menn fögnuðu hátt í 30 milljarða króna hagnaði liðins árs. Sjálfskipuð stjórn dró sig svo í hlé til að skipta með sér verkum. Björgólfur Thor var endurkjörinn formaður en Þórunn Guðmundsdóttir, sem var varamaður og skipt inná - dró upp tillögu um að Eggert Magnússon, formaður KSÍ tæki sæti varaformanns í stað Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum. Sátt var rofin og stjórnin klofin, segir Magnús Kristinsson.

Í annari fylkingunni eru menn Björgólfs - hinum megin Magnús og Kristinn Björnsson og ráða þeir um 30 prósent hlutafjár. Ekki náðist í Björgólf Thor sem er á leið til útlanda og Eggert Magnússon vildi ekki annað segja en hann væri þarna sem fulltrúi minni hluthafa - og hann væri jú einn af þeim.

Heimildir NFS herma þó að þessi útskipti séu ekkert annað en skýlaust vantraust á Magnús og Björgólfur hafi ekki viljað treysta á samstarf við hann.

Kristinn Björnsson virðist styðja við bakið á Magnúsi þó hann hafi setið hjá við atkvæðagrieðsluna í gær. Hann vildi ekki skýra þá hjásetu eða yfirhöfuð tjá sig um málið við NFS að öðru leiti en því að þeir Magnús hefðu setið saman í stjórn í fjögur ár "..og við erum miklir vinir", -bætti Kristinn við. Ljóst er að eftrmál verða - hluthafafundar krafist með endurkjöri til stjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×