Innlent

Engin aðstaða fyrir hreyfihamlaða í húsakynnum Skáksambandsins

Hreyfihamlaðir eru afar óánægðir með aðgengi í húsakynnum Skáksambandsins og hafa af þeim sökum ekki tekið þátt í skákmótum þar í fjölda ára. Formaður sambandsins segist líta á þetta sem forgangsmál.

Skáksambandið stendur fyrir alþjóðlegri skákhátíð næstu daga sem hefst með Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu á mánudaginn í húsakynnum sambandsins í Faxafeni þar sem Taflfélag Reykjavíkur hefur einnig aðstöðu. Yfir hundrað manns af hinum ýmsu kynþáttum, þjóðarbrotum og trúarbrögðum munu þar etja kappi en hátíðin ber yfirskriftina „Skákin brúar bil". Arnór Pétursson, formaður Sjálfsbjargar, segir að mörgum hreyfihömluðum finnist sú yfirskrift skjóta skökku við þar sem aðgengi fyrir þá í húsi Skáksambandsins sé ekki til að hrópa húrra fyrir, eins og þeir hafi bent á fyrir mörgum árum, því engin lyfta sé í húsinu. Þeir vilji nú vekja athygli á þessu að nýju í ljósi skákmótsins og yfirskriftar þess.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Skáksambandsins, segir fyrsta verkið við undirbúning mótsins hafi verið að sækja um styrk til að setja lyftu í húsið, en hann hafi því miður ekki enn fengist. Allt verði hins vegar gert til að þeir sem bundnir eru hjólastól geti sótt mótið líkt og aðrir. Hún segir það engum vafa undirorpið að þetta mál sé algjört forgangsmál í hennar huga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×