Innlent

101 fasteignafélag kærir úrskurðinn til Hæstaréttar

MYND/Vísir

101 fasteignafélag ætlar að kæra úrskurð Héraðsdóms frá í morgun þar sem hann hafnaði beiðni félagsins um að samningur þess við Stafna á milli og fleiri félög, um kaup á húsnæði við Laugaveg, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vatnsstíg, yrði þinglýstur. Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Verðbréfastofu sem fékkst ekki innan tilskilins frests. Eftir það seldi Stafna á milli fasteignirnar öðru félagi sem hyggst fara í uppbyggingu á þessum slóðum en það voru stjórnendur 101 fasteignafélags ósáttir við og töldu sig eiga rétt á fasteignunum. Dómari var því ósammála og varð við beiðni forsvarsmanna Stafna á milli um að vísa máli 101 fasteignafélags frá dómi.

Magnús Ingi Erlingsson, talsmaður félagsins, segist afar ósáttur við úrskurðinn, enda sé hann rangur. Hann sé byggður á þeirri forsendu að Verðbréfastofa sé eigandi fasteignanna en ekki veðhafi. Það komi hins vegar mjög skýrt fram í málinu sjálfu að Verðbréfastofa sé aðeins veðhafi. Magnús segir að þar fyrir utan sé fyrirtæki eins og Verðbréfastofu mjög þröngur stakkur sniðinn ef það eigi að vera í stöðu eiganda. 101 fasteignafélag ætlar því að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×