Erlent

Móðir brasilíubarns fundin

Simone da Silva var handtekin í Belo Horizonte í Brasilíu í dag. Hún segist hafa skilið nýfætt barn sitt í höndum heimilislausrar konu sem hún gekk fram á. Sjálf hafi hún ekki verið í sálrænu ástandi til að ala upp barn.

Simone da Silva, móðir: „Ég gat ekki haft hana. Sálarástand mitt var ekki þannig að ég gæti það. Ég fór með hana út úr spítalanum. Það var hópur manna við stöðuvatnið, heimilislausir held ég. Ég bað þá að skilja barnið eftir einhvers staðar af því að ég vildi það ekki."

Barnið fannst í plastpoka úti í vatni á föstudag. Menn sem heyrðu hljóð úr pokanum héldu að þar væri ef til vill köttur sem hefði átt að drekkja. Lögregla sem skoðar málið segir að Simone da Silva hafi ekki reynst sannsögul við yfirheyrslur, jafnvel logið til um heimilisfang sitt. Því bendi allt til þess að hún hafi sjálf sett barnið í pokann. Litla stúlkan var útskrifuð af sjúkrahúsi í gær, við góða heilsu, og margir hafa boðist til að taka hana að sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×