Erlent

Íranar fagna tilboði Rússa

f.v. Mehdi Safari, utanríkisráðherra Írans, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
f.v. Mehdi Safari, utanríkisráðherra Írans, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. MYND/AP

Íranar fagna tilboði stjórnvalda í Moskvu um að Rússar auðgi úran fyrir þá en segja nauðsynlegt að útfæra tilboðið betur. Stjórnvöld í Teheran hóta því að hefja auðgun úrans af fullum krafti ef kjarnorkudeilu þeirra við Vesturveldin verði vísað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Íranar eiga von á því að það taki tíma að fullgera samkomulag við Rússa sem báðir aðilar geti sætt sig við. Finna þurfi verksmiðju, ákveða hvernig samvinnu ríkjanna verði háttað og útfæra tæknileg atriði. Vesturveldin styðja tilboð Rússa og vona að nýtt fyrirkomulag auðveldi eftirlit með kjarnorkuáætlun Írana svo hægt verði að tryggja að þeir noti úranið ekki til framleiðslu kjarnorkuvopna. Tilboð Rússa verður rætt frekar á fundi 16. febrúar.

Þeir sem gagnrýnt hafa tilboðið segja Írana nota það til að kaupa sér tíma.

Í byrjun febrúar kemur stjórn Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar saman til neyðarfundar þar sem talið er líklegt að tekin verði ákvörðun um hvort deilunni verði vísað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Íranar hafa hótað því að hverfa frá alþjóðlegum skuldbindingum sínum verði málinu vísað þangað.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, efast um að stjórn kjarnorkumálastofnunarinnar nái að vísa deilunni til Öryggisráðsins í byrjun febrúar. Hann segir El Baradei, yfirmann stofnunarinnar, hafa tjáð sér að hann eigi ekki von á því að skýrsla um deiluna verði ekki tilbúin fyrr en í lok febrúar og hún verði ekki kynnt á fundi stjórnarinnar fyrr en í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×