Innlent

Nauðgaði fjórtán ára stúlku

Rúmlega tvítugur karlmaður, Edward Apeadu Koranteng, var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku. Nauðgunin átti sér stað á síðasta ári en fyrir hálfum mánuði var maðurinn kærður fyrir að nauðga þrettán ára stúlku.

Móðir stúlkunnar kærði nauðgunina í nóvember í fyrra en hún átti sér stað í september á síðasta ári. Stúlkan var ásamt tveimur vinkonum sínum á Hlemmi þegar þær hittu manninn. Hann bauð þeim heim til sín til að hlusta á tónlist en hann er í rapphljómsveit og gengur undir nafninu Eddie Boy. Þegar heim til mannsins var komið lokaði maðurinn sig inni í herbergi með stúlkunni og nauðgaði henni.

Stúlkan leitaði til Neyðarmóttöku fórnarlamba kynferðisofbeldis fjórum vikum eftir nauðgunina en hún þorði fyrst um sinn ekki að segja móður sinni frá atvikinu.

Dómurinn taldi framburð stúlkunnar og vinkvenna hennar trúverðugan og augljóst að atburðurinn hefði sett mark sitt á þær. Sálfræðingur í Barnahúsi sem ræddi við stúlkuna greindi fjölmörg vandamál sem þekkt eru meðal barna sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi. Stúlkan hefur eftir nauðgunina haft lágt sjálfsmat og hefur átt erfitt með að einbeita sér og gengið illa í skóla.

Maðurinn neitaði fyrir dómi að hafa haft samræði við stúlkuna en framburður hans þótti misvísandi.

Dómurinn telur brot mannsins ófyrirleitið en hann hafi bæði beitt aldurs- og aflsmun þegar hann nauðgaði stúlkunni. Maðurinn var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í þriggja ára fangelsi og jafnframt til að greiða stúlkunni eina milljón króna í skaðabætur.

Í lok nóvember var maðurinn aftur kærður til lögreglunnar í Reykjavík fyrir að nauðga þrettán ára stúlku. Maðurinn gengur laus og þarf ekki að hefja afplánun fyrr en eftir að hann hefur tekið ákvörðun um hvort hann ætli að áfrýja dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×