Erlent

Íslenskir fjölmiðlar njóta einna mests frelsis

Í blaðamannaherbergjum hittist fjölmiðlafólk víðsvegar að.
Í blaðamannaherbergjum hittist fjölmiðlafólk víðsvegar að.

Ísland er í fyrsta til fjórða sæti á nýjum lista samtakanna Blaðamenn án landamæra (Reporters sans frontières) yfir þau lönd þar sem fjölmiðlar njóta mests frelsis. Með Íslandi á toppnum eru Finnland, Írland og Holland. Samtökin segja lítið breytast í þeim löndum sem verst búi að blaðamönnum.

Norður-Kóreumenn eru neðstir á listanum, á eftir Túrkmenum og Eritreubúum. Samtökin kalla þessi þrjú lönd vítistríóið en þau voru einnig þrjú neðstu á síðasta ári. Þar geti blaðamenn goldið fyrir "röng" skrif með lífi sínu eða frelsisskerðingu. Þá nefna samtökin að ástandið sé ekki mikið skárra í þeim löndum sem næst koma: Kúbu, Myanmar, Kína og Íran.

Það eru ekki eingöngu hömlur ríkisstjórna á fjölmiðlafólk sem lækka lönd á listanum. Ofbeldi og ótryggt ástand lækka einnig einkunn sem löndin fá. Írak er í 157. sæti vegna stríðsástandsins sem þar ríkir. Átökin í landinu frá árinu 2003 hafa kostað 72 fjölmiðlamenn lífið, sem gerir átökin þau mannskæðustu fyrir fjölmiðlafólk síðan í seinni heimsstyrjöldinni

Listann má finna í heild sinni á heimasíðu samtakanna: http://www.rsf.org/




Fleiri fréttir

Sjá meira


×