Innlent

Samfylkingin ekki af baki dottin

MYND/Gunnar V. Andrésson

Fylgi Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg hrynur samkvæmt nýrri skoðanakönnun NFS; fer úr rúmum 40 prósentum í rúm tuttugu. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn ekki sigraðan þrátt fyrir þetta.

Margrét er ekki í vafa um að niðurstöður á kjördag verði Samfylkingunni vilhallari en skoðanakönnun sem gerð var fyrir NFS gefur til kynna. Samfylkingin hefur haft meirihluta í Árborg en samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkur hreinan meirihluta.Hún bendir á að íbúum hafi fjölgað mjög mikið í Árborg á kjörtímabilinu og það hljóti að teljast ótvíræð meðmæli með því uppbyggingarstarfi sem meirihluti Samfylkingar hafi unnið í velferðarmálum.

Margrét segist hafa átt von á hækkuðu fylgi sjálfstæðismanna því þeir hafi farið snemma af stað með kosningabaráttu sína og fengið mikla athygli út af prófkjörinu. Samfylkingin sé hins vegar nýbúin að stilla upp endanlegum lista sínum og nýbúin að opna kosningaskrifstofu.

Hún minnir á að allt fram að síðustu sveitarstjórnarkosningum hafi Sjálfstæðisflokkurinn mælst með meirihluta í Árborg en að raunin hafi orðið önnur, Samfylkingin hafi fengið meirihluta á lokasprettinum. Því telur hún ekki nokkra ástæðu til að örvænta þó að ein skoðanakönnun hafi verið óhagstæð, því enn sé langt til kosninga og tími til að spýta í lófana og setja kosningabaráttuna í hærri gír.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×