Innlent

Lyf og heilsa varast að selja karlmönnum daginn-eftir-pillu

Lyf og heilsa hefur beint þeim tilmælum til starfsmanna sinna að þeir varist að selja svokallaða daginn-eftir-pillu til ungra karlmanna. Ástæðan er sú að stúlkur hafa verið beittar þrýstingi um kynmök án getnaðarvarna af því strákurinn lumi á pillunni.

Daginn-eftir-pillan, er eins og nafnið gefur til kynna tekin eftir kynmök, til þess að hindra að frjóvgað egg geti sest að í leginu. Að sögn lækna er þetta neyðarúrræði sem alls ekki sé ætlað að koma í stað getnaðarvarna. Þetta er truflun á hormónastarfsemi kvenlíkamans og margar konur verða fyrir óþægilegum aukaverkunum af lyfinu, svo sem ógleði og uppköstum.

Eysteinn Arason, lyfjastjóri Lyfja og heilsu, segir það ekki ákveðna stefnu fyrirtækisins að hindra aðgang karlmanna að pillunni. Hann segist hins vegar hafa sent starfsmönnum og leyfishöfum bréf þar sem hann lýsi möguleikanum á þessu athæfi. Hann beindi því til starfsmanna að biðja karlmenn sem vilji kaupa umrædda pillu að hringja í stúlkuna sem á að taka hana. Ef kvenmannsrödd stendur að baki kaupunum er það tekið gott og gilt. Annars sé það ástæðulaust að karlmenn kaupi pilluna því það er jú konan sem tekur hana og glímir við verkanir hennar og aukaverkanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×