Lífið

Ný bók að koma og starfslok í vor

Eftir helgina kemur út ný bók eftir Pál Skúlason, háskólarektor og prófessor í heimspeki, sem gefin er út á fjórum tungumálum í senn, íslensku, ensku, frönsku og þýsku. Bókin heitir Hugleiðingar við Öskju en í henni leggur Páll út af stórbrotnu náttúrufari við Öskju og veltir upp hugleiðingum um eðli trúarbragða og stöðu mannsins í heiminum. Grundvöllur trúarinnar Þó svo að Páll noti Öskju sem útgangspunkt í bók sinni segir hann fólk vissulega geta orðið fyrir þeirri reynslu af náttúrunni sem í henni er lýst við allt aðrar aðstæður. "Eins gæti eitthvað örsmátt í náttúrunni vakið þessa reynslu af sjálfstæðum veruleika óháðum vitund okkar, fullum af leyndardómum," segir hann, en slíkri upplifun fylgir gjarnan einnig vitundin um eigin smæð, vanmátt og takmarkanir. "Við fæðumst þarna inn í heim sem er óendanlega stórkostlegur ef svo má orða það," segir hann og telur að þarna sé komin tilfinningin sem liggi trúarbrögðum til grundvallar. "Andspænis þessum sjálfstæða náttúrulega veruleika uppgötvum við okkur sem vitandi verur og líf okkar verður fólgið í því að mynda tengsl, eða samband, við þennan veruleika og okkar á milli. Þetta samband er andlegt og þar með eiginlega af trúarlegum toga, en svo getur það auðvitað þróast á marga ólíka vegu." Páll segist ekki óttast að fólki finnist vegið að trú sinni með því að skilgreina trúarþörfina á þennan hátt. "Ég er heldur ekki að fjalla um hin breytilegu trúarbrögð, heldur um ákveðna sammannlega reynslu. Ef eitthvað er, þá er í þessu fólgin ákveðin viðurkenning á mikilvægi trúarbragða almennt, hver sem þau eru." Hugleiðingar við Öskju eru hins vegar ekki bara heimspekirit heldur einnig nokkurs konar handbók ferðafólks, ríkulega skreytt ljósmyndum Guðmundar Ingólfssonar. "Ég vona að hún gagnist fólki þegar það ferðast um landið," segir Páll og vísar til þess hvernig fólk leitast við að hverfa úr sínu hversdagslega umhverfi í fríum í leit að endurnýjun, hvíld og hressingu. "Þá virðist gjarnan vera freistandi að reyna að enduruppgötva eða endurupplifa náttúruna. Í því sambandi getur auðvitað verið gagnlegt fyrir fólk að hafa einhvern texta til að íhuga." Meira fé í skólana Líta má á útkomu nýrra bóka sem ákveðin tímamót, en Páls Skúlasonar bíða önnur tímamót í vor þegar hann lætur af starfi rektors Háskóla Íslands. "Ég fer aftur í prófessorsstarfið og mín fræði," segir hann og kveður það munu verða spennandi að koma aftur að fræðunum. "Það er náttúrlega sá heimur sem ég hef verið að vinna í," segir hann og játar því að vera þegar farinn að leggja í huganum grunn að næstu bókum. "Maður er auðvitað alltaf að því, en það er kannski fullsnemmt að segja til um þá hluti." Páll segist mjög sáttur við tíð sína sem rektor, en hann hefur gegnt starfinu í um átta ára skeið. "Þetta hefur verið afskaplega skemmtilegur tími og tilbreytingaríkur. Starfið er fjölbreytt og viðfangsefnin mörg og ólík. Þarna fékk ég tækifæri til að kynnast háskólafólki og háskólanum á alveg nýja vegu og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera í þessu hlutverki." Skólinn hefur í rektorstíð Páls gengið í gegnum miklar breytingar og vaxið, bæði hvað varðar fjölda nemenda og námsframboð. Páll segir mestu nýmælin fólgin í auknu framboði meistara- og doktorsnáms. "Þegar ég er að byrja voru um 100 nemendur í meistaranámi en núna eru um 1.500 í meistara- og doktorsnámi. Þetta er gjörbylting í starfi Háskólans og hefur verið stórkostlegt ævintýri," segir Páll og telur óvíst að þjóðfélagið hafi enn uppgötvað hversu mikla þýðingu það hafi að hafa að bjóða svo öflugt nám. "Þessi vöxtur allur kallar vitanlega á meira fé, aukið húsnæði og bættar aðstæður, um leið og nýta þarf peninga og húsnæðið sem fyrir er betur en nokkru sinni. Það höfum við reynt að gera um leið og við höfum kallað eftir meiri fjármunum. Hins vegar er alveg ljóst að þjóðfélagið þarf að leggja mun meira í háskólana. Þessi aukna menntun í meistara- og doktorsnámi er einfaldlega framtíðin og krafa þjóðfélagsins er að stofnanir eins og Háskólinn sinni þessum verkefnum sem síðan skila sér með óendanlega breytilegum og margvíslegum hætti út í þjóðfélagið."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.