Erlent

Flestir sækja um hæli í Frakklandi

Meira en sextíu þúsund manns sóttu um pólitískt hæli í Frakklandi á síðasta ári. Hvergi í heiminum sækjast fleiri eftir pólitísku hæli, en ekki vilja þó allir flóttamennirnir ílengjast þar. Næstflestir flóttamenn sóttu um hæli í Bandaríkjunum, eða rúmlega fimmtíu þúsund. Þar fækkaði slíkum umsóknum um nærri þrjátíu prósent á síðasta ári. En þó að pólitískir flóttamenn sendi flestar umsóknir til Frakklands þá verða ekki allir ánægðir þegar þangað er komið. Margir reyna að komast yfir til Bretlands þar sem þeir telja að betur sé farið með flóttamenn. Í hafnarbænum Calais eru t.d. búðir fyrir hundruð flóttamanna sem bíða eftir úrlausn sinna mála hjá frönskum yfirvöldum. Aðstæður þar eru ekki til að hrópa húrra fyrir og því ef til vill ekki skrítið að margir ímyndi sér að grasið sé grænna hinum megin Ermarsundsins. Bæði bresk og frönsk yfirvöld hafa hins vegar hert landamæraeftirlit til muna og segir fréttamaður Sky-fréttastofunnar, sem dvaldi í búðunum í viku, að hann hefði fylgst með mörgum flóttamönnum reyna að komast yfir á hverri einustu nóttu, en engum hefði tekist ætlunarverkið. Annað hvort væru þeir stöðvaðir þar sem þeir reyndu að klifra yfir girðingar, eða vörubílstjórar neituðu að smygla þeim fyrir greiðslu af ótta við að verða gripnir og fá þá himinháa sekt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×