Erlent

Launalækkun á meðgöngu

Það er ekki kynjamisrétti að konur lækki í launum ef þær eru mikið frá vinnu vegna veikinda á meðgöngu. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins. Írsk kona, Margaret McKenna, notaði allt sitt launaða veikindaleyfi erfiðri meðgöngu árið 2000 og þegar hún tók frí fram yfir það, þá voru laun hennar lækkuð um helming. McKenna kærði vinnuveitanda sinn og sagði um misrétti að ræða þar sem aðeins konur yrðu veikar vegna meðgöngu og því væri þetta brot á jafnréttislöggjöf Evrópusambandsins. Konur ættu að fá full laun á meðgöngu, þótt þær væru frá vinnu vegna veikinda. Þessu var dómstóllinn ósammála, því að þótt óheimilt sé að segja barnshafandi konum og konum í fæðingarorlofi upp, þá er vinnuveitanda leyfilegt að lækka laun ef ófrísk kona er meira frá vinnu en sem nemur veikindaleyfi hennar, að því gefnu að karlmaður, sem væri jafn mikið frá vinnu vegna annars konar veikinda, fengi sömu meðferð. Írski vinnumáladómstóllinn mun nú fjalla um málið og kveða upp lokaúrskurð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×