Lífið

V-Dagurinn er í dag

"V-dagurinn er haldinn árlega til þess að minna á að ofbeldi gegn konum er til staðar og í of miklum mæli," segir Hildur Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri V-dagsins, en í tilefni hans er veigamikil dagskrá í Íslensku óperunni í kvöld. "Eve Ensler er meðal þeirra sem mæta í Óperuna og hún er drottning V-dagsins og stofnandi samtakanna. Það ætti enginn að láta hana framhjá sér fara því þarna er á ferðinni kjarnorkukona og gaman verður að heyra hvað hún hefur um málið að segja." Að sögn Hildar fengu V-dags samtökin styrk frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til þess að halda uppi starfsmanni samtakanna og telur hún að það gefi gott fordæmi. V-dagurinn er hápunktur ársins hjá V-dagssamtökunum þó svo að þetta sé alls ekki eini dagurinn sem þau láta í sér heyra. "Við erum alltaf til staðar og alltaf að reyna að finna nýjar og nýjar leiðir til þess að vinna gegn ofbeldi á konum. Við stofnum líka árlega til herferðar gegn nauðgunum og fer sú herferð fram um verslunarmannahelgina." Auk Ensler munu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir fara með einleik úr píkusögum, söngkonurnar Ellen Kristjánsdóttir og Lára Rúnarsdóttir skemmta gestum, sýnt verður brot úr heimildarmynd um starf Eve Ensler og fleira kræsilegt verður á boðstólum. Dagskrá kvöldsins hefst klukkan níu en húsið verður opnað klukkan átta. "Sá mikli fjöldi fólks sem mætir á samkomur V-dagsins sýnir að þetta er mörgum hjartans mál," segir Hildur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.