Sport

Litlaust á Skaganum

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að leikmenn ÍA ætluðu að selja sig dýrt gegn ÍBV í gærkvöld og voru leikmenn liðsins afskaplega duglegir og agaðir allan leikinn. Þeir voru verðlaunaðir með marki strax á 17. mínútu leiksins þar sem var að verki hinn ungi og bráðefnilegi Hafþór Ægir Vilhjálmsson. Þá skoraði hann með góðu skoti fyrir utan teig en þangað hrökk boltinn eftir að leikmenn ÍBV höfðu hreinsað hornspyrnu Dean Martin frá marki. Heimamenn héldu áfram að þjarma að marki ÍBV það sem eftir lifði leiks og bættu verðskuldað við marki stundarfjórðungi fyrir leikslok. Það gerði Andri Júlíusson, annar ungur leikmaður ÍA sem nýkominn var inn á sem varamaður, þegar hann lagði boltann framhjá Birki Kristinssyni í markinu eftir meistaralega sendingu Dean Martin. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri hjá heimamönnum en þeir voru einstaklega óheppnir með skot sín í leiknum í gær. Fótboltinn sem boðið var upp á í gær var í lágum gæðaflokki og augljóst að þarna eru á ferð tvö lið sem eiga í vandræðum í deildinni. Þrátt fyrir að hafa verkið nokkuð frá sínu besta voru Skagamenn mun markvissari í öllum sínum aðgerðum og hefðu á eðlilegum degi skorað mun fleiri mörk. Þeirra sprækastur var markaskorarinn Hafþór og fór hann oft illa með varnarmenn ÍBV. Þá spilaði Pesic líklega sinn besta leik í sumar og Dean Martin var gríðarlega duglegur í stöðu fremsta miðjumanns. Lið ÍBV var, eins og svo oft áður á útivelli í sumar, heillum horfið lengst af og var það aðeins þegar boltinn fór í gegnum Atla Jóhannsson á vinstri kanti sem að eitthvað gerðist í sóknarleiknum. Er það hér með fullyrt að Atli er einn af hættulegustu upphafsmönnum skyndisókna sem til er á landinu. En þegar horft er til þess að ÍBV lenti undir strax á 17. mínútu er með ólíkindum að sjá hversu aftarlega liðið spilaði það sem eftir lifði leiks. Flestir leikmanna liðsins eru afar takmarkaðir knattspyrnumenn sem geta þó á góðum degi farið langt á baráttu og eljusemi, en þegar kemur að hugmyndaauðgi í sókninni er liði Eyjamanna stórlega ábótavant.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×