Erlent

Deila um lát leyniþjónustumanns

MYND/AP
Harðar deilur eru sprottnar á milli Ítala og Bandaríkjamanna um rannsókn á dauða ítalsks leyniþjónustumanns í Írak. Ítalar hafa í kjölfarið skipað ríkissaksóknara landsins að hraða sinni rannsókn. Deilt hefur verið um aðdraganda þess að bandarískir hermenn skutu á bíl sem flutti blaðakonuna Guiliana Sgrena eftir að leyniþjónustumanninum Nicola Calipari tókst að frelsa hana úr hendi mannræningja. Skothríðin kostaði Calipari lífið og Ítalir vilja að þeim sem bera ábyrgð á því verði refsað. Bandaríkjamenn segja hermennina hafa farið eftir settum reglum og um það er deilt. Reynt hafði verið að ná sáttum um rannsókn málsins en nú er ljóst að það tekst ekki. Hermt er að Bandaríkjamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að framferði hermannanna sé ekki saknæmt. Ekki síst í ljósi þess að málið hefur valdið Silvio Berlusconi ómældum pólitískum erfiðleikum vilja ítölsk stjórnvöld nú að glæparannsókn fari fram. Í síðasta mánuði hóf ríkissaksóknari morðrannsókn og vilja stjórnvöld að henni verði hraðað. Þrír saksóknarar vinna að málinu og átján vísindamenn frá tæknideild lögreglunnar. Þeir munu meðal annars skoða bílinn sem skotið var á til að reyna að sannreyna hver skaut, hvenær, úr hvaða fjarlægð og á hvaða hraða bíllinn var. Ítalir segja að Bandaríkjaher hafi fengið að vita af ferðum bílsins með góðum fyrirvara. Þeir sem í honum sátu segja hann hafa verið á hægri ferð og að engar viðvaranir hafi verið gefnar áður en skothríðin hófst. Skotið hafi verið samfellt í næstum fimmtán sekúndur. Því hafna Bandaríkjamenn, segja að ljósmerki hafi verið gefin, bílstjóranum veifað og viðvörunarskotum hafi verið hleypt af áður en skotið var í vél bílsins til að stöðva hann. Sjónvarpsstöðin CBS segir gervihnattarmyndir til sem staðfesti að bíllinn var á 96 kílómetra hraða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×