Erlent

Efndu til illinda við hermenn

Til átaka kom á milli öfgafullra gyðinga sem leggjast gegn brottflutningi landnema af Gaza-ströndinni, ísraelskra hermanna og Palestínumanna í gær. Ólga vegna áforma Ísraelsstjórnar um að flytja landnema á brott af Gaza-ströndinni fer vaxandi en í gær skarst alvarlega í odda á milli þeirra sem harðast berjast gegn brottflutningnum og ísraelska hersins. Hópur ungra öfgasinnaðra gyðinga hafði lagt undir sig yfirgefið hús á Gaza en þegar hermenn rýmdu húsið í dögun kom til nokkurra átaka. Síðar um daginn köstuðu öfgamennirnir steinum í palestínska vegfarendur og færðust þeir í aukana þegar hermenn reyndu að skerast í leikinn. Einn Palestínumannanna liggur lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, fordæmdi rósturnar harðlega í gær og sagðist mundu tala við öfgamenn með tveimur hrútshornum. Hörð viðbrögð hans þykja gefa til kynna að hann óttist að illindin muni aukast og stefna brottflutningnum í hættu. Þá ollu mótstöðumenn brottflutningsins töfum á helstu umferðaræðum í Jerúsalem og Tel Aviv en mótmæli fóru þó friðsamlega fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×