Erlent

Héraðshöfðingjar strengja sín heit

Forsætisráðherrar ellefu af sextán sambandslöndum Þýskalands, sem allir eru í flokki með Angelu Merkel, hétu því í gær að leggjast á eitt með henni, verði hún kanslari, við að koma nauðsynlegum efnahagsumbótaráðstöfunum í gegn um þingið. Tilgangurinn með þessari afdráttarlausu samstöðuyfirlýsingu var að telja kjósendur á að kjósa stjórnarskipti nú um helgina. Meðal þess sem gerði ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja erfitt fyrir að koma sínum umbótaáætunum í framkvæmd var að þær þurftu að fást samþykktar í efri deild þingsins, Sambandsráðinu, en í því eiga sæti fulltrúar stjórna sambandslandanna. Allt síðasta kjörtímabil voru flokksbræður Merkel þar í meirihluta. Í þýska sambandslýðveldinu hefur oft sýnt sig að héraðshöfðingjarnir láti sérhagsmuni eigin héraðs ganga fyrir heildarhagsmunum ríkisins, jafnvel þótt sami flokkur sé við völd bæði í héraði og í höfuðborginni. Af þessari ástæðu þykir yfirlýsing þeirra nú hafa vægi í baráttunni um atkvæðin. "Þýskaland þarf á skýrri stefnu að halda, sem byggir á skýrum meirihluta. Stjórnarskipti í Berlín eru nauðsynleg fyrir Þýskaland til að binda endi á hörmulega stefnu "rauð-grænu" stjórnarinnar," segir í yfirlýsingu héraðsleiðtoganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×