Erlent

Bygging múrsins lögleg

Hæstiréttur Ísraels hefur fellt þann úrskurð að bygging hins umdeilda varnarmúrs sé að hluta til ólögleg og að breyta verði legu hans á nokkrum stöðum. Alþjóðadómstóllinn í Haag felldi þann úrskurð árið 2004 að bygging múrsins væri ólögleg. Úrskurðir dómstólsins eru ekki bindandi og Ísraelar hafa hunsað hann. Ríkisstjórn landsins segir að múrinn sé nauðsynlegur til þess að hindra að hryðjuverkamenn geri árásir í borgum landsins. Auk þess að kæra múrinn til Alþjóðadómstólsins kærðu Palestínumenn hann einnig til hæstaréttar Ísraels sem hefur nú úrskurðað að löglegt sé að reisa múr til varnar íbúum landsins, en að breyta verði legu hans á nokkrum stöðum þar sem hann fari inn á land sem Palestínumenn ráði yfir. Bygging múrsins er nú um það bil hálfnuð en hann á að verða 600 kílómetra langur meðfram landamærum Palestínumanna á Vesturbakkanum. Þegar þeir verja byggingu múrsins benda Ísraelar meðal annars á að þeir reistu varnarmúr meðfram Gaza-svæðinu fyrir mörgum árum, með þeim árangri að þaðan hafi ekki komið sjálfsmorðsárásarmenn síðan. Þeir hafi allir komið frá Vesturbakkanum. Þess má svo geta að Egyptar byrjuðu í dag að setja upp gaddavírsgirðingu á landamærum sínum að Gaza-svæðinu en Palestínumenn tóku við stjórn þess fyrr í vikunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×