Erlent

Discovery lendir í dag

Áætlað er að geimferjan Discovery lendi við Canaveralhöfða í Flórída dag. Áhöfnin lauk undirbúningi sínum fyrir ferðina til jarðar í gærmorgun og æfðu lendinguna ítrekað í tölvuhermi. Veðurspáin lofar góðu fyrir lendinguna og hefur ferðin tekist nokkuð vel að mati bæði vísindamanna hjá NASA og áhafnar ferjunnar. Mönnum er þó enn í fersku minni Columbia-slysið er varð þegar geimferjan Columbia var í aðflugi fyrir hálfu þriðja ári. Hún tættist í sundur og tugum tonna af braki rigndi yfir Texas og Louisiana. Áhöfn Discovery og íbúar alþjóðlegu geimstöðvarinnar áttu saman stund áður en Discovery lagði af stað heim á leið til að minnast þeirra sem létust í Columbia-slysinu. Undanfarna daga hefur Discovery legið við alþjóðlegu geimstöðina þangað sem hún bar tækjabúnað, vistir og mannskap. Farið var í þrjár geimgöngur og gerðar prófanir á því hvernig bera skal sig að ef laga þarf hitahlífar ferjunnar úti í geim. Þessi ferð Discovery gengur undir nafninu "Return Flight", eða "flogið aftur" og vísar nafnið til þess að ekki hefur verið flogið á geimferju síðan Columbia-slysið varð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×