Innlent

Krabbameinsleit stór þáttur í að draga úr leghálskrabbameini

Leghálskrabbameinsleit er stærsti þátturinn í að draga úr tíðni leghálskrabbameins. Bólusetning kvenna mun ekki koma í veg fyrir nauðsyn þess að konur mæti til leitar.

Leghálskrabbameinsleit hófst hér á landi árið 1964 og eru konur á aldrinum 25-69 ára boðaðar í leit á tveggja til þriggja ára fresti. Árlega greinast 15 til 18 konur með leghálskrabbamein og hátt í 1500 hundruð konur með forstigsbreytingar. Leghálskrabbameinsleitin sjálf hefur gert það að verkum að langflestar konur greinast snemma. Kristján Sigurðsson, yfirlæknir hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, segir að leghálskrabbameinsleit kvenna hafi dregið úr tíðni leghálskrabbameins úr öðru sæti í það ellefta þegar algengi krabbameina er skoðað.

Leghálskrabbamein orsakast af HPV veiru en verið er að vinna að bóluefni sem gæti valdið byltingu á sviði leghálskrabbameins. Bóluefnið virkar á tvo algengustu stofana af átján sem orskar um 70% af leghálskrabbameini. Bóluefnið mun þó aðallega nýtast næstu kynslóð kvenna. Kristján segir að bóluefnið komi ekki í veg fyrir að konur þurfi að mæta til leitar. Þær sem eru bólusettar þurfa áfram að mæta til leitar því bóluefnið nær ekki yfir alla stofna veirunnar.

HPV smitast við kynmök og hafa þessi smit hæsta tíðni meðal yngri kvenna fyrst eftir að þær hefja kynlíf. Tíðni sýkinga minnkar með aldrinum og nær jafnvægi eftir fertugt. Talið er að um 80% kvenna smitist einhvern tímann af HPV og minnir Kristján á nauðsyn þess að nota verjur við samfarir. HPV smit eykst með fjölda rekkjunauta en veiran berst með þeim mönnum sem konurnar sofa hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×