Innlent

Forstjóri KB banka segir ekkert hæft í ásökunum Íbúðalánasjóðs

MYND/Vísir

Íbúðalánasjóð grunar að KB banki hafi brotið lög og góða viðskiptahætti þegar bankinn seldi íbúðabréf sama dag og síðasta útboð sjóðsins fór fram og hefur óskað eftir umsögn Fjármálaeftirlitsins. Forstjóri KB banka á Íslandi segir ekkert hæft í þessum ásökunum.

Formaður stjórnar Íbúðalánasjóðs segir að framferði KB-banka þann 22. nóvember síðastliðinn, þegar Íbúðalánasjóður bauð út skuldabréf fyrir 3 milljarða króna, hafi skaðað lántakendur Íbúðalánasjóðs. Gunnar S. Björnsson, stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs, segir að á síðustu tíu mínútunum áður en markaðurinn lokaði á útboðsdaginn hafi KB-banki dælt inn á markaðinn bréfum fyrir um 1,6 milljarða króna. Þetta hafi óhjákvæmilega áhrif til hækkunar á markaði og þýði að sjóðurinn hafi fengið verri niðurstöðu í útboði sínu og lántakendur þar með hærri vexti.

Ingólfur Helgason, forstjóri KB banka á Íslandi, segir ekkert martækt í þessum ásökunum. Þegar dregið er frá kaupum það sem bankinn seldi af skuldabréfum Íbúðalánasjóðs þennan dag sé um einn milljarð að ræða. Að mati Ingólfs sé það ekki mikið ef heildarviðskipti til dæmis í nóvember séu skoðuð. Bankinn sjái um mikið af viðskiptum með íbúðabréf bæði fyrir sig og viðskiptavini sína. Tilviljun ein ráði því að viðskiptin hafi átt sér stað rétt fyrir lokun markaðar. Bankinn hafi átt viðskipti allan daginn og þá með verulegar fjárhæðir enda sé KB banki stór aðili á markaðinum. Ingólfur segir að viðskiptin með íbúðalánabréf séu ekki á neinn hátt tengd því að bankinn sé í samkeppni við Íbúðalánasjóð á íbúðalánamarkaði.

Íbúðalánajóður hefur því óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið kanni málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×