Erlent

Hættir útsendingum á miðnætti

Fólk á ferli í Kristjaníu.
Fólk á ferli í Kristjaníu.

Einkarekin útvarpsstöð í Danmörku krefur danska ríkið um það sem nemur þremur milljörðum íslenskra króna, en stöðin hættir útsendingum annað kvöld vegna bágrar fjárhagsstöðu. Stjórnarandstaðan í Danmörku segir þetta dæmi um misheppnað afnám einokunar danska ríkisútvarpsins.

Þrátt fyrir fjölda svæðisbundinna einkarekinna útvarpsstöðva, þar sem þær stærstu ná til um helmings dönsku þjóðarinnar, var það fyrst fyrir tveimur árum að einokun danska ríkisútvarpsins á landsvísu var rofin. Fyrir hafði danska ríkisútvarpið fjórar FM rásir, og Sky Radio fékk þá fimmtu eftir útboð. Gerður var samningur til átta ára. Árleg greiðsla Sky Radio til ríkisins nemur rúmum fimm hundruð milljónum íslenskra króna, samtals rúmum fjórum milljörðum.

Sky Radio hættir útsendingum á miðnætti í kvöld, vegna rekstarerfiðleika. Stöðin hefur greitt fyrir tvö ár af átta og skuldar danska ríkinu því enn, sem nemur rúmum þremur milljörðum íslenskra króna. Við keyptum gallaða vöru, segja yfirmenn Sky Radio, sem segja sér hafa verið lofað dreifikerfi sem næði til tæplega áttatíu prósenta þjóðarinnar. Raunin sé hins vegar að aðeins rúm sextíu prósent Dana nái útsendingum stöðvarinnar. Sky Radio hefur því krafið danska ríkið um endurgreiðslu sem nemur um þremur milljörðum íslenskra króna - sem vill svo til að er einmitt sú upphæð sem stöðin skuldar ríkinu. Danski menntamálaráðherrann segir kröfu Sky Radio óraunhæfa. Sá möguleiki sé líklegri að stöðin þurfi að greiða fyrir útvarpsleyfið næstu sex ár, þrátt fyrir að hætta rekstri nú. Á síðasta ári var rekstartap Sky Radio um sjö hundruð íslenskar milljónir.

Í vor var reynt að ná til fleiri hlustenda með því að ráða dagskrárgerðarfólk, en fram að því hafði stöðin verið sjálfvirk tónlistarstöð, þar sem eina talaða málið voru fréttir á klukkutíma fresti og spjall þættir á kvöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×