Erlent

Parísarbúar eru áhyggjufullir vegna óeirðanna

Íbúar Parísar hafa verulegar áhyggjur af ástandinu, enda tjónið mikið og fólk orðið hrætt við að vera á ferli í ákveðnum hverfum. Eyðileggingin er gríðarleg, eftir tíu kvöld og nætur af stöðugum óeirðum, skemmdarverkum, brunum og jafnvel líkamsárásum. Og nú þegar bílar eru farnir að brenna inni í miðborg Parísar eru íbúarnir virkilega farnir að hafa áhyggjur af því að þessu linni hreinlega ekki fyrr en herinn verði kallaður til. Einn verslunareigandi var fjúkandi reiður enda sagði hann ástandið mjög slæmt og líkti því við stríðsástand. Margir Parísarbúar eru áhyggjufullir um að óeirðirnar færist nær miðborg Parísar og sumir eru mjög hræddir.

Um fimm milljónir múslima búa í Frakklandi, flestir af norður-afrískum uppruna, frá fyrrum nýlendum Frakka. Og eins og fram hefur komið hefur innanríkisráðherrann Nicolas Zarkozy sagt að áfram verði fylgt svokallaðri "zero tolerance" stefnu sem útleggst "ekkert umburðarlyndi" á íslensku. Parísarbúar halda því niðri í sér andanum og vona að málin leysist án þess að komi til blóðbaðs á götum hinnar sögufrægu höfuðborgar Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×