Erlent

Áframhald á óeirðum

Úthverfi Parísar standa í ljósum logum kvöld eftir kvöld. Bara í gærkvöldi brunnu níu hundruð bílar, auk þess sem kveikt var í verslunum, skólum, barnaheimilum og eiginlega hverju því sem á vegi reiðra mótmælenda varð.

Óeirðirnar hófust í Clichy-sous-Bois fyrir níu dögum og svo borgir eða úthverfi hringinn í kringum miðborg Parísar, þangað sem ólætin hafa breiðst út undanfarna daga. Í gærkvöldi bárust svo fregnir af óeirðum í nokkrum öðrum borgum Frakklands.

Frönsk stjórnvöld standa agndofa hjá og gengur ekkert að ná tökum á ástandinu. Þrátt fyrir að á annað þúsund lögreglumenn hafi verið sendir á vettvang gengur ekkert að stöðva óeirðirnar sem hafa brotist út á hverju kvöldi síðan 27. október. Þá bárust fregnir af því að tveir drengir af afrískum uppruna, fimmtán og sautján ára, hefðu látist þegar þeir fengu raflost þar sem þeir földu sig í lítilli rafstöð á flótta undan lögreglunni.

Um eitt þúsund manns tóku svo í dag þátt í þögulli mótmælagöngu gegn óeirðunum í Aulnay-sous-Bois, einu þeirra hverfa sem hvað verst hafa orðið úti. Brunnir bílar og byggingar um allt bera þess glöggt vitni. Óeirðirnar hafa stigmagnast með hverjum deginum sem líður og fátt sem bendir til þess að þeim linni í bráð. Ríkisstjórn Frakklands hefur þungar áhyggjur af ástandinu en boðar áframhaldandi hörku í samskiptum við þá sem standa fyrir ólátunum.

Jóhann M. Hauksson bjó árum saman í Frakklandi og hefur meðal annars kennt námskeið um rasisma við Háskóla Íslands. Hann segir ástæðu óeirðanna meðal annars vera þá að óeirðirnar eigi sér stað í úthverfi Frakklands þar sem safnast hefur upp eymd og volæði síðustu áratugi meðal innflytjenda. Börn innflytjenda búa við mikið vonleysi. Í Clichy-sous Bois er 25% atvinnuleysi meðal ungs fólks. Jóhann segir ástæðu þess að upp úr sjóði núna einkum vera stjórnmálalegs eðlis og beinist þar spjótin að Nicolas Zarkosy innanríkisráðherra en hann tók upp svokallaða "zero tolerance" stefnu, líkt og Bandaríkjamenn tóku upp hjá sér. Stefna þessi felst í því að lögregla hefur gerst æ ákveðnari í samskiptum sínum við innflytjendur og vandamálum þeim tengt. Jóhann segir ástandið óþolandi fyrir fólkið en lögregla leiti gjarnan á fólki út á götu og biðji um vegabréf. Einnig virðist skipta máli hver uppruni fólks sé, en hann hafi til að mynda aldrei verið stoppaður út á götu af lögreglunni vegna þess að hann var hvítur. Arabískir kunningjar hans hafi þó ekki sömu sögu að segja. Þetta vekur óænagju meðal fólksins sem sé ein helsta ástæða óeirðanna. Jóhann segir að verulega hafa verið dregið úr félagslegri aðstoð og verkefni fyrir ungt fólk hafi verið aflögð. Hann gerir þó ráð fyrir að óeirðirnar muni ljúka að lokum líkt og annars staðar en mikilvægt sé að grípa til aðgerða svo sagan endurtaki sig ekki.

Fréttina má sjá í heild sinni á VefTV Vísir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×