Bíó og sjónvarp

Latibær með flestar tilnefningar

Tilnefningar til Edduverðlaunanna voru kynntar á blaðamannafundi í hádeginu í dag. Latibær fær flestar tilnefningar eða fimm talsins; Strákarnir okkar, One Point O og Voksne mennesker fá fjórar hver og Stelpurnar og Reykjavíkurnætur þrjár hver. Önnur verk fá tvær eða færri.

Heiðursverðlaun ÍKSA, (íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar) í ár hlýtur Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrum menntamálaráðherra, fyrir framlag sitt til stofnunar Kvikmyndasjóðs Íslands árið 1978.

Stöð2 hlýtur fjórar tilnefningar vegna sjónvarpsefnis, fyrir IDOL stjörnuleit II , Það var lagið, Sjálfstætt fólk og Einu sinni var.

RÚV hlýtur tvær tilnefningar fyrir sjónvarpsefni, þættina Í brennidepli og Útlínur.

Skjár1 hlýtur sömuleiðis tvær tilnefningar, annars vegar fyrir Sirrý og hins vegar Sjáumst með Sylvíu nótt.

Notendur Vísis geta tekið þátt í kjöri á besta sjónvarps- og kvikmyndaefni síðasta árs og besta fagfólkinu. Kosning er hafin hér á Vísi og gilda atkvæði Vísinotenda 30% á móti atkvæðum akademíunnar.

Nöfn þeirra sem taka þátt í kosningunni á Vísi fara í pott og hlýtur heppinn þátttakandi miða fyrir tvo á verðlaunahátíð Eddunnar.

Eingöngu Vísinotendur geta tekið þátt í vali á sjónvarpsmanni ársins. Kosning stendur til klukkan 16. föstudaginn 11. nóvember en verðlaunin verða afhent á Hótel Nordica sunnudaginn 13. nóvember.

Meðan á hátíðinni stendur fer fram SMS-kosning um þá fimm sjónvarpsmenn og konur sem hljóta flest atkvæði í netkosningu hér á Vísi. Niðurstaðan úr SMS-kosningunni ræður svo úrslitum um hver hlýtur titilinn sjónvarpsmaður ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×