Innlent

Stækkun kostar tæpan milljarð

Tæpan milljarð króna kostar að stækka Bláa lónið. Framkvæmdir eru hafnar og er ráðgert að þeim ljúki vorið 2007. Vinsældir Bláa lónsins eiga sér nær engin takmörk. Nú skal haldið áfram að stækka aðeins sex árum eftir að nýja Bláa lónið var opnað. Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir að lagt verði út frá því að bæta umgjörð um þá þjónustu sem þegar sé sinnt í lóninu. Bætt verði við veitingasal sem sprengdur verði inn í berg á svæðinu. Þá verði verslunarrými stækkað og búnings- og baðaðstaðan endurhönnuð og stækkuð og síðast en ekki síst verði baðlónið stækkað um helming. Það verði orðið 7 þúsund fermetrar þegar stækkuninni verður lokið. Aðspurður hversu mikið stækkunin muni kosta segir Grímur að það verði um 800 milljónir króna þegar upp verði staðið. Grímur segir að reiknað sé með að um 350 þúsund manns heimsæki Bláa lónið í ár og þrátt fyrir að hátt gengi krónunnar hafi komið mjög illa við íslenska ferðaþjónustu virðist ferðaþjónustuaðilar þokkalega bjartsýnir á að ferðamenn haldi áfram að koma til Íslands og þeim muni jafnvel fjölga. Forsvarsmenn Bláa lónsins vilji því vera viðbúnir til þess að standa sína pligt í því efni. Framkvæmdirnar munu án efa auka enn hróður Bláa lónsins enda ætla forsvarsmenn þess sér ekkert annað en að halda toppsætinu yfir mest sóttu ferðamannastaði á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×