Innlent

Ekki ráðinn nýr umboðsmaður

"Mér finnst líklegra að þeim fjármunum sem ætlaðir eru til umboðsmanns íslenska hestsins verði varið til einhverrar stofnunar sem er að vinna að markaðsmálum íslenska hestsins og að það verkefni verði til þar inni. Samið verði um að vinna það með sendiráðum, útflytjendum og öðrum sem að útflutningsmálum koma." Þetta segir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra um skipan mála eftir að Jónas R. Jónsson, umboðsmaður íslenska hestsins, hefur sagt upp störfum. Jónas sagði upp á þriðjudaginn en ætlar að vinna út uppsagnarfrestinn fram að áramótum. Guðni segist telja, að Jónas hafi unnið að mörgum góðum verkefnum, ekki síst varðandi atvinnuleyfi tamningamanna í Bandaríkjunum sem sé mikill áfangi fyrir íslenska hestamenn. Þá megi nefna lausn hinnar miklu deilu um skattamál við Þjóðverja sem umboðsmaður hafi komið verulega að. "Enn eru þrjú ár eftir af þessu verkefni," segir ráðherra. "Því verður haldið áfram en alveg eins getur komið til greina að Útflutningsráð eða einhver annar aðili geti tekið markaðsþáttinn inn til sín." Verkefni umboðsmanns byggir á samkomulagi landbúnaðarráðherra, samgönguráðherra og utanríkisráðherra. Auk framangreindra ráðuneyta eru Flugleiðir og KB -banki stuðningsaðilar verkefnisins. Í verkefnið eru ætlaðar 11-12 milljónir á ári. "Það náðist ekki pólitísk samstaða stjórnvalda um að leggja verkefninu til það fé sem lagt var upp með," segir Jónas R. Jónasson, spurður um ástæður þess að hann láti nú af starfi sem umboðsmaður íslenska hestsins. "En fjármagnsþörfin fer eftir því hvað menn vilja gera, hvaða árangri þeir vilja ná og á hvað löngum tíma. Ég skil við þetta starf sáttur við guð og menn." Spurður hvað Jónas ætti við þegar hann ræddi um skort á pólitískri samstöðu til að þeim fjármunum í verkefnið sem lagt hefði verið upp með svaraði landbúnaðarráðherra: "Ég átta mig ekki á því. Það var gerður skriflegum samningur og fjármunirnir nýttir sem slíkir til þessa verkefnis."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×