Innlent

Greiðslubyrði hækkar

Íbúðaverð á höfuborgarsvæðinu er vel yfir meðalverði húsnæðis í helstu stórborgum Evrópu. Þriggja herbergja íbúð sem kostaði 16 milljónir í ársbyrjun 2004 kostar tuttugu og þrjár milljónir nú. Greiðslubyrðin hefur hækkað um sautján þúsund krónur á mánuði þrátt fyrir vaxtalækkanir. Ný frönsk könnun sýnir að meðalverð íbúðahúsnæðis er hæst í Lúxembourg eða þrjátíu og fimm milljónir króna á íbúð, næst hæst í Bern í Sviss en þar munar um hálfri milljón. Könnunin nær ekki til Íslands en samkvæmt Fasteignamati ríkisins er meðalverð á Íbúðarhúsnæði um tuttugu og tvær til tuttugu og þrjár milljónir króna, sé litið til kaupsamninga að undanförnu. Meðalverðið er hinsvegar aðeins rúmar 14 milljónir í Aþenu og tæpar 14 milljónir í Brussel í Belgiu, svo nokkur dæmi séu tekin. Ekki er í könnuninni gerður samanburður á lífskjörum í landinu til þess að sjá hvar íbúðaakaup taka harðast á pyngju almennings, en í fljótu bragði eru laun í Belgíu síst lakari en hér á landi þótt húsnæðisverð þar sé mun lægra en hér. Hlutfall húsnæðis í heildarútgjöldum íslenskra heimila hefur vaxið jafnt og þétt vegna hækkana á húsnæðismarkaði og er nú tæp tuttugu og sex prósent en var í mars í fyrra áður en vextir á íbúðalánum lækkuðu til muna tæp tuttugu og tvö prósent. Samkvæmt útreikningum ASÍ hefði fólk sem hefði keypt þriggja herbergja íbúð fyrir sextán milljónir í ársbyrjun í fyrra og tekið til hundrað prósenta lán til tuttugu og fimm ára, þurft að greiða níutíu og sex þúsund krónur í afborganir á mánuði í fyrravor. Ef það hefði keypt í vor, eða á tímabilinu apríl til júní. hefði það orðið að greiða tuttgu og þrjár milljónir fyrir sömu eign, og greiðslubyrðin væri orðin eitthundrað og sjö þúsund á mánuði. Ef það nyti ekki vaxtabóta, en til greina kemur að leggja þær niður, væri hún rúmlega eitthundrað og þrjátíu þúsund krónur á mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×