Innlent

Hestasundlaug nauðsyn

Það bráðvantar hestasundlaug hér á landi. Þetta hljómar kannski eins og grín en hestamönnum er dauðans alvara. Reykjavíkurborg mun væntanlega breyta deiliskipulagi í Víðidal svo þar megi gera eina slíka. Hestasundlaug hljómar ef til vill eins og klósnyrtistofa fyrir hunda - einhver lúxus sem engin alvöru þörf sé fyrir. En staðreyndin er sú að þjálfun í sundlaug getur skipt sköpum fyrir árangur á stórmótum. Svíar bökuðu til dæmis Íslendinga í skeiði á heimsmeistaramótinu síðasta og telja margir hestamenn að það megi beinlínis rekja til þess að Svíar þjálfa sín íslensku hross mikið í sundlaug. Atli Guðmundsson hestamaður segir enda að ef Íslendingar komi sér ekki upp slíkum útbúnaði megi þeir reikna með því að Íslendingar dragist aftur úr í hestaíþróttunum enda taki mun lengri tíma að ná upp sömu getu hjá hestum með hefðbundinni þjálfun en í þartilgerðri sundlaug. Hestakona í Víðidal sótti um að byggja hestasundlaug en ekki er gert ráð fyrir slíku í deiliskipulagi. Helga Bragadóttir, skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar, sagði skipulagsyfirvöld hins vegar jákvæð og á von á að deiliskipulaginu verði einfaldlega breytt, svo byggingin verði heimil. Atli Guðmundsson leggur þó áherslu á að rétt eins og hjá mannfólkinu séu ekki til neinar töfralausnir til að komast í gott form.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×