Innlent

Sextán ára fangelsi staðfest

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm héraðsdóms frá því í mars yfir Hákoni Eydal, banamanni Sri Rahmawati. Hákon skal sæta fangelsi í sextán ár fyrir morð á fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður. Hákon krafðist sýknu á þeim forsendum að hann væri ekki sakhæfur. Það var hins vegar mat geðlæknis að Hákon væri sakhæfur og ábyrgur gerða sinna og sýndi engin örugg merki sturlunar eða rugls. Hákon lagði til Sri með kúbeini og sló hana fjórum sinnum í höfuðið. Þá vafði hann taubelti þrívegis um háls hennar þannig að banamein var kyrking. Hákon var talinn hafa farið smánarlega með líkið og reynst lögreglu erfiður við rannsókn málsins. Af rannsókn þótti einsýnt að hann iðraðist ekki gerða sinna sérstaklega. Staðfest er ákvörðun héraðsdóms um málskostnað og skaðabætur. Við málskostnaðinn bætast málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda Hákonar, samtals 996 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×