Innlent

Sjálfstæðir leikskólar fullmannaði

"Vandamál við að manna leikskólana okkar eru óþekkt og enginn þeirra hefur staðið frammi fyrir því að þurfa að loka deildum," segir Margrét Pála Ólafsdóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla. Samtök sjálfstæðra skóla eru regnhlífarsamtök sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla. Innan þeirra starfa 26 leikskólar á höfuðborgarsvæðinu sem sinna um 1500 nemendum. Margrét Pála telur að ekki sé um teljandi launamun að ræða milli starfsmanna á leikskólum samtakanna og leikskólum sem reknir eru af Reykjavíkurborg. "Við búum við ákveðið rekstrarlegt sjálfstæði sem gerir okkur kleift að hafa frumkvæði í starfsmannahaldinu," segir Margrét. Hún telur að nútímaleg starfsmannastjórnun sé lykillinn að velgengni skóla innan samtakanna. "Borgaryfirvöld og leikskólastjórar hjá borginni hafa góðan vilja til þess að leita lausna en búa ekki við sama frjálsræði og við," bætir Margrét við. Hún segir að reynt sé að veita starfsfólki umbun sem ekki sé þó alltaf í formi peninga. Viðvarandi vandi blasir við á mörgum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Dæmi eru um að einstaka leikskóla vanti sjö starfsmenn til þess að geta sinnt eðlilegu starfi. Fundur var í fyrrakvöld í leikskólanum Laufskálum í Grafarvogi þar sem foreldrar, kennarar og borgarfulltrúar hittust til þess að ræða stöðu mála. Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi sat fundinn. "Það er augljóst að hér er um neyðarástand að ræða sem við verðum að vinna bug á hið fyrsta," segir Guðlaugur. Hann segir stjórnmálamenn hafa gert of lítið úr vandanum og brugðist of seint við. Hann ítrekar að þessi gagnrýni beinist ekki að starfsfólki skólanna, sem nú um stundir vinni gott starf undir erfiðum kringumstæðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×