Innlent

Skuldaaukning upp á 240 milljarða

Heildarútlán bankakerfisins hafa aukist um nær áttahundruð og fimmtíu milljarða króna á einu ári. Sú útlánaaukning jafngildir nær þreföldum fjárlögum íslenska ríkisins. Á sama tíma og met er slegið í viðskiptahalla við útlönd hafa heildarútlán í bankakerfinu aukist um 850 milljarða eða um rétt um 62 prósent. Heildarútlán bankana til heimila hafa á sama tíma aukist um 240 milljarða eða um 56 prósent. Viðskiptahallinn í nýliðnum ágústmánuði var 11,8 milljarðar króna og heildarskuldsetning heimilana jókst um 24 milljarða á sama tíma. Skuldaaukninguna á undanfarnu ári má að hluta til skýra með þenslu á húsnæðismarkaði en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur á sama tíma hækkað um 40 prósent. Einnig má leita skýringar í því að það sem af er ári hefur umferðarstofa nýskráð nær tuttuguþúsund bifreiðar á meðan sextánþúsund voru nýskráðar allt árið í fyrra. Ólafur Darri Andrason hagfræðingur Alþýðusambandsins segir þessa auknu skuldsetningu vera til marks um mikla þenslu í efnahagslífinu. Frá september og fram í desember í fyrra hafi yfirdráttarskuldir lækkað vegna endurfjármögnunar lána. Þá hinsvegar hafi þróunin snúist við og yfirdráttarskuldir aftur farið að hækka. Skuldir heimilana hafa aldrei aukist jafn mikið milli mánaða og einmitt nú milli júlí og september og þenslunni virðist hvergi nærri lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×