Innlent

Yfirfullur Landsspítali

"Það er mjög erfitt ástand um þessar mundir því við stjórnum ekki aðstreymi sjúklinga," segir Magnús Pétursson, forstjóri Landsspítala-Háskólasjúkrahúss. "Bæði er verið að taka á móti bráðveiku fólki en líka fólki sem hefur verið á biðlistum. Þetta er háannatími og það leiðir til þess að spítalinn er yfirfullur og rúmlega það." Spítalinn hefur verið að leita til annarra sjúkrastofnana á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenninu, og einhver dæmi eru um að sjúklingar séu fluttir á Akranes. Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri segir undanfarna viku hafa verið toppinn á ísjakanum eftir annasaman september mánuð. Hún segir enga augljósa ástæðu vera fyrir miklum veikindum undanfarið og telur að þetta sé ekki haustflensa. "Við höfum þó reyndar á tilfinningunni að mönnunarekla á hjúkrunarheimilum í haust hafi hugsanlega áhrif," segir Anna, en fyrir vikið hefur ekki verið hægt að útskrifa jafnmarga. Það er þó aðeins hluti vandans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×