Innlent

Ágreiningur á Álftanesi

Meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar Álftaness greinir á um þá fyrirætlan að leigja undir aðstöðu frá Hjúkrunarheimilinu Eir, en það er nú að fara að byggja öryggisíbúðir og þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara. Innan bæjarfélagsins er í skoðun að það leigi húsnæði sem tengist þessum byggingum af Eir til fjörutíu ára og noti undir stjórnsýslu og bókasafn. "Grundvallaratriðið er að með í þessari vinnu er samnýting húsnæðis með Eir," segir Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarstjóri á Álftanesi. Með þessum samningi sér hann fram á að fundaraðstaða, símakerfi, tölvukerfi og geymslur nýtist báðum aðilum og því sé þetta hagkvæmur kostur. Kristján Sveinbjörnsson frá minnihlutanum segir þetta ekki vera rétt, heldur muni það kosta bæjarfélagið 240 milljónir næstu fjörutíu ár að leigja frekar en að byggja sjálft sambærilegt húsnæði. "Miðað við samningsdrögin er ekki hægt að segja upp þessum leigusamningi," segir Kristján. Sveitarstjórnin mun taka ákvörðun um leiguna hinn 11. október næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×