Innlent

Þvert á vilja bæjarbúa

Aðstandendur verkefnisins Akureyri í öndvegi, sem lýtur að uppbyggingu miðbæjarins á Akureyri, eru því mjög mótfallnir að Samskip verði úthlutað lóð undir vöruskemmu við hlið Eimskips á hafnarsvæðinu. Umsókn Samskipa er nú til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum en Ragnar Sverrisson, talsmaður Akureyrar í öndvegi, segir að fái Samskip lóðina sé það þvert á vilja bæjarbúa. "Það er mjög alvarlegt mál ef Samskip fær þessa lóð því fram kom sterkur vilji á fjölmennu íbúaþingi í fyrra að þarna verði í framtíðinni íbúðabyggð og allar verðlaunatillögurnar í hugmyndasamkeppni um mótun miðbæjarins gera ráð fyrir því," segir Ragnar. Umsókn Samskipa verður tekin fyrir hjá umhverfisráði Akureyrarbæjar í dag en endanleg ákvörðun er í höndum bæjarstjórnar Akureyrar. "Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að bæjarfulltrúar á Akureyri hunsi vilja bæjarbúa, hvernig sem málið verður afgreitt í umhverfisráði," segir Ragnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×